Korku saga
,,Taktu við,“ sagði Korka þegar Hallur birtist í dyrunum og rétti að honum tvo fulla skyrbelgi. Hann bandaði frá sér og kallaði í þrælinn sem hafði gengið upp að kvíunum. |
Hér eru sameinaðar í einni bók verðlaunabækurnar Við Urðarbrunn (1993) og Nornadómur (1994).
Í þessari spennandi skáldsögu frá upphafsárum Íslandsbyggðar er sögð saga ambáttarinnar fjölkunnugu sem aldrei gefst upp þrátt fyrir grimman dóm nornanna sem spinna vef sinn við Urðarbrunn. Þær eru hvergi nefndar á nafn í Íslendingasögunum, dætur norskra landnema, fæddar af herteknum konum frá Bretlandseyjum. Korka er ein slík en sættir sig ekki við líf í ánauð og teflir á tæpasta vað í baráttu sinni fyrir betra lífi. Hún er neydd til að flýja af landi brott og kemst til Heiðabæjar í Danmörku þar sem afdrifaríkir atburðir bíða hennar. Fyrir áræði sitt fær hún sig leysta úr ánauð en ekki er allt fengið með frelsinu því hyldýpi er á milli þrælborinna og þeirra sem fæddir eru frjálsir. Dómar & umsagnirSilja Aðalsteinsdóttir / Tímarit Máls og menningar 1995 Formlega er sagan af Korku sambærileg við vel gerðar ævintýrasögur fyrir unglinga, en efnislega brýtur hún blað í unglingabókaskrifum hér á landi. Þá á ég bæði við fróðleikinn um samfélag manna hér á landi og í grannlöndunum á víkingaöld en þó einkum raunsæislegar lýsingar á ofbeldi og ástarlífi, án yfirbreiðslu og mærðar. Hvörfin í Við Urðarbrunn, þegar Korku er nauðgað og hún myrðir kvalara sinn, eru líka hvörf í íslenskum unglingabókum. Viðmið þeirra hafa breyst óafturkallanlega. Sigrún Klara Hannesdóttir / Morgunblaðið 1993 Höfundur hefur skapað sögusvið sem er sannfærandi og á þessu sögusviði er teflt fjölda fólks sem stýrt er af kunnáttu og nákvæmni til að skapa heillandi og magnaða atburði. ...Þetta er átakasaga og þroskasaga, grimm á köflum en trú þeim tíma sem hún túlkar. Bók Vilborgar er glöggt dæmi um hversu erfitt það getur verið að flokka bækur eftir því til hvaða aldurs þær eigi að höfða, enda hefur verið sagt að góð bók eigi að höfða til allra aldurshópa . . . Þetta gæti verið Íslendingasaga skrifuð út frá sjónarhóli kvenna. Sigrún Klara Hannesdóttir / Lesbók Morgunblaðsins 1994 Saga Vilborgar, Við Urðarbrunn, er metnaðarfullt ritverk sem verðskuldar athygli. Vilborg fer ótroðnar slóðir og sækir efnivið sinn til íslenskrar fortíðar, í raun allt aftur til landnámsaldar. Sögð er saga ambáttardótturinnar Korku og samskipta hennar við eigendur sína og annað fólk. Þetta er saga mikilla örlaga, grimm og oft ómannúðleg á nútíma mælikvarða en samt falleg og ótrúlega vel unnin sem byrjendaverk. Höfundi tekst að draga upp svo skýra og trúverðuga mynd af umhverfi og lifnaðarháttum, hugsanahætti og viðhorfum að snilld má teljast. Þetta er örugglega ein af þeim bókum sem í framtíðinni mun fylla flokk sígildra íslenskra unglingabóka. Oddný Árnadóttir / DV 1993 Málfar og persónusköpun, ásamt lýsingum á vinnubrögðum fólks á þessum tíma, gefa sögunni mjög sannfærandi blæ þannig að lesandi hrífst auðveldlega með atburðarásinni sem er bæði hröð og spennandi. Það er fáum gefið að geta skrifað verk sem er allt í senn; metnaðarfullt, spennandi og fróðlegt en mér finnst Vilborg komast vel frá því og þrátt fyrir ungan aldur söguhetjunnar á þessi saga erindi til allra. Þuríður Jóhannesdóttir / Skíma 1995 Lítil hefð er fyrir sögulegum unglingabókum á Íslandi og Norðmenn og Danir hafa verið miklu duglegri að skrifa bækur fyrir unglinga um víkingatímann en við Íslendingar. Það er því ánægjulegt að fram er kominn höfundur sem lofar góðu á þessu sviði, Vilborg Davíðsdóttir með tvær bækur um Korku; Við Urðarbrunn 1993 og Nornadómur 1994. Þær eiga skilið að þeim sé veitt athygli og eiga fullt erindi inn í skólana sem bókmennta-kennsluefni og líka sem ítarefni í sögukennslu. Kristjana Gunnars / World Literature Today 1996 Nornadómur is written in crisp, clear language. All the outlines are sharply drawn characters, places, and dialogue are rendered so distinctly that they are bound to be etched in the reader´s mind for a long while after putting the book down. Conflict and development appear so convincing that it is even possible to forget that this is fiction....Perhaps the gritty behavior of men toward women in these novels will come as a disappointment to admirers of the Viking past. But there has long been a necessity to rewrite history somewhat and shift the emphasis toward the women...It is a stroke of good fortune that the author of these two novels is no stranger to history and delivers an authoritative rendition of the past. Mostly, it seems, Nornadómur is distinguished by an intelligence of telling and a clarity of vision that make the reading most rewarding. |