Undir Yggdrasil (2020)
Umsögn dómnefndar við tilnefningu til Fjöruverðlaunanna: |
Þorgerður Þorsteinsdóttir ól tvíbura þegar hún var sjálf vart af barnsaldri en mátti bíða lengi eftir óskabarninu sínu, Þorkötlu Dala-Kollsdóttur. Því harmþrungnari eru atburðirnir eftir þingið á Þórsnesi þegar tátlan er aðeins sjö ára gömul – og öllum óskiljanlegir. Þorgerður kýs heldur að leita styrks hjá skapanornunum undir askinum Yggdrasil en Hvítakristi ömmu sinnar, Auðar djúpúðgu, og leitin að sannleikanum leiðir hana í siglingu austur yfir haf og seiðför í sali Heljar. Undir Yggdrasil er grípandi skáldsaga úr sama sagnabrunni og Vilborg Davíðsdóttir sótti áhrifamikinn þríleik sinn um Auði, en fyrsta bindi hans var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sögutíminn er aldamótin 900, líkt og í hennar fyrstu bókum, Við Urðarbrunn og Nornadómi, sem síðar komu út í einni undir titlinum Korku saga. Þar var fjallað um ambátt af norsk-írskum uppruna sem barðist fyrir frelsi úr ánauð en hér segir frá Þorgerði Þorsteinsdóttur, konu af ætt sem sögð er ein sú göfugasta sem nam land á Íslandi. Þorgerður kom í Dali frá Skotlandi með ömmu sinni Auði djúpúðgu, þremur yngri systrum og bróður, segir í Laxdælu. Vorið eftir er hún gefin í hjónaband og með Kolli manni sínum eignast hún þrjú börn. Við dauða hans, þegar hún er enn „ung og væn“, tilkynnir hún einkasyninum Höskuldi að hún ætli burt af landinu og heldur með kaupskipi til Noregs þrátt fyrir andmæli hans.
Vilborg spinnur þráð sinn út frá þessum fáu línum og dregur upp þroskasögu konu sem frá barnsaldri þráir að nema fjölkynngi og finnur sér loks leið í gegnum áföllin sem á henni dynja inn í veröld völvunnar og yfirnáttúrulegra vætta. Undir heimstrénu mikla, Yggdrasil, kemst hún hins vegar að raun um að til eru spurningar sem hvorki lifendur né dauðir eiga svör við og ekki er endilega sá kostur bestur að fá að vita forlög sín fyrir. Sagan veitir kynngimagnaða innsýn í heim norrænnar heiðni um leið og hún fjallar um ýmis efni sem enn er glímt við í samtímanum: grimmd gagnvart þeim sem eru öðruvísi en aðrir, kynferðisbrot gegn barni, ástleysi í hjónabandi, missi og sorg, mansal kvenna og bannhelgina sem hvílt hefur á samkynhneigð um aldir. Undir Yggdrasil er tíunda bók Vilborgar. Sögulegar skáldsögur hennar hafa notið mikilla vinsælda undanfarna áratugi enda varpa þær nýju og óvæntu ljósi á líf kvenna sem lengi hafa staðið í skugga í karlaveldi Íslandssögunnar. Vilborg í viðtali við Maríönnu Clöru Lúthersdóttur um bókina Undir Yggdrasil, í Bókasafni Kópavogs, í nóv. 2020.
Hér má horfa á Bókaspjall Bókasafns Garðabæjar þar sem Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur ræðir við rithöfundana Vilborgu Davíðsdóttur, Hallgrím Helgason, Katrínu Júlíusdóttur og Gunnar Þór Bjarnason um nýútkomin verk þeirra.
Hér segir Vilborg frá bókinni í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni Kona sem lætur ekki að stjórn annarra. Og hér segir hún Arndísi Björk Ásgeirsdóttur á Rás 1 frá því hvernig hún fær innblástur af því að hlusta á tónlist á meðan hún skrifar í þættinum Skáld hlusta. Dauðinn er síðasta undrið er fyrirsögnin á viðtali við Vilborgu í helgarútgáfu Fréttablaðsins 11. des. 2020, þar sem hún segir frá ástvinamissi og göngu sinni með sorginni. Á árabilinu 2013 til 2017 hefur Vilborg fylgt til grafar eiginmanni, tengdamóður, föður, dótturdóttur og vinkonu. Bókin Undir Yggdrasil er tileinkuð minningu þeirra tveggja síðasttöldu. Umfjöllun gagnrýnendaDómefnd Fjöruverðlaunanna 2021 í flokki fagurbókmennta (umsögn í fullri lengd) Í Undir Yggdrasil leiðir Vilborg Davíðsdóttir lesandann heima á milli, frá Íslandi austur um haf og frá söguheimi miðalda yfir í handanheima heiðninnar. Efnistökin eru nútímaleg, úrvinnslan á sagnaarfinum vönduð og frásögnin meistaralega fléttuð. Bókin gefur innsýn í líf bæði kvenna og annarra aukapersóna Íslendingasagnanna. Hjalti Snær Ægisson/ Bókasafn Hafnarfjarðar jan. 2021 Andstæður heiðni og kristni, staða og líf kvenna á landnámsöld og hið óvænta ljós sem Vilborg hefur varpað á líf formæðra Íslendinga hefur fest þessa bók, sem og fyrri bækur Vilborgar, vel í sessi hjá íslenskum lestrarunnendum. ... Sýn Vilborgar á þetta samfélag sem var hér við lýði við upphaf Íslandsbyggðar er afskaplega heillandi. ... Hún dregur upp flóknari mynd af því en við þekkjum úr elstu heimildum. ... Vilborg gefur ekki bara konum landnámsaldarinnar rödd heldur líka fólki af lægri stigum, þrælum, ambáttum, vinnufólki, útlendingum ef við getum orðað það þannig og hún leggur sig eiginlega fram við að flækja þessar hefðbundnu hugmyndir sem við höfum haft um landnámsöldina. ... Það fer ekkert á milli mála að Vilborg er mjög vel heima í nýjustu rannsóknum á þessu tímabili. ... Mjög lipurlega skrifuð og mjög skemmtileg. Katrín Lilja/Lestrarklefinn 5. janúar 2021 Örlagavefur Þorgerðar Þorsteinsdóttur (ritdómurinn í fullri lengd) 4 stjörnur Vilborgu tekst að fanga lesandann algjörlega í örlagavef Þorgerðar, og maður verður að vita hvert örlaganorninar hafa spunnið vef hennar. Ferðin til Noregs og síðar Eystrasaltsríkjanna var upplýsandi og áhugaverð. Persónurnar sem koma við sögu á hverjum stað fyrir sig eru vel uppbyggðar og sannfærandi, svo þær standa ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesandans. Vilborg endurlífgar fortíðina í bókinni, blæs lífi í gamla siði og lesandinn verður í smástund sannfærður um að hann sé að lesa um fortíð sem átti sér stað í raun. Þrátt fyrir að vera hæg í byrjun er Undir Yggdrasil bók sem dregur lesandann aftur til fortíðar og sleppir seint. Vilborg skapar ótrúlega nákvæmt persónugallerí sem lesandinn á erfitt með að sleppa hendinni af. Sunna Dís Másdóttir/ Kiljan, RÚV Bókmenntaþátturinn Kiljan 25. nóv. 2020 Mér finnst [Vilborgu] takast alveg ótrúlega vel [að skapa þennan tíma]. . . Það sem hún gerir svo ótrúlega vel, finnst mér, er að kalla fram þennan heim og teikna upp þetta svið. Það er verið að setja þing í upphafi bókar, þar er blótfórn og ég sýg þetta allt saman í mig. En það sem mér fannst einna skemmtilegast var þessi sigling út, þar sem [aðalpersónan Þorgerður] fær annað tækifæri til að mennta sig í þessum fræðum og þá hjá seiðkonu af Samaættum sem heitir Finna - og hún leiðir hana í seiðför. Þetta minnir á fólk sem er að drekka Ayahuasca-seyði hægri vinstri núna í einhverjum sweat-æfingum. En hver þarf það þegar maður getur farið í seiðför með Vilborgu hér? Mér fannst það ótrúlega flott og spennandi. Ég hefði helst bara viljað vera aðeins lengur með henni þarna í handanheimum. Þorgeir Tryggvason/ Kiljan, RÚV Þetta er greinilega upphafið á nýjum og miklum sagnabálki og þetta er mjög spennandi úrvinnsla úr þessum heimi. ... Og mjög gaman að því þegar [Vilborg] er að snerta á nágrönnum norrænna þjóða og fer til Kúrlands. Soffía Auður Birgisdóttir/ Skáld.is í nóv. 2020 Ask veit eg standa (ritdómurinn í fullri lengd) Bókin ber öll bestu einkenni höfundar síns; hún er afbragðs vel skrifuð, frásögnin haganlega saman fléttuð og spennandi frá upphafi til enda. Vilborg sýnir hugmyndaauðgi þegar hún skáldar í eyðurnar og tekst vel að tengja við málefni sem brenna á samtímanum. Hún leyfir sér einnig meiri fantasíu en í Auðarbókunum og vafalaust kunna margir vel að meta það. Stíll bókarinnar er mjög fallegur og auðveldur aflestrar þrátt fyrir að Vilborg sé óspör á sjaldgæf orð úr fornu máli sem prýða textann. Ef eitthvað er hefur Vilborg náð enn betri tökum en áður á frásagnarhætti sínum, varla snurðu á honum að finna. Védís Huldudóttir/ Bókmenntavefurinn í nóv. 2020 Svo rætist hver draumur sem hann er ráðinn (ritdómurinn í fullri lengd) Myndmálið í Undir Yggdrasil er afskaplega sterkt og samheldið. Mjög snemma í sögunni dreymir Þorgerði fyrir hörmungunum sem eiga sér stað síðar í bókinni — ófædd dóttir hennar fléttar sér blómakórónu á bökkum stöðuvatns en nykur lokkar stúlkuna á bak og hverfur með hana ofan í vatnið — og ráðning draumsins er mikið lykilatriði í framvindu sögunnar. Draumnum er lýst í miklum smáatriðum og minnir mjög á þá drauma sem birtast í Íslendingasögum. ... Hverju andartaki er svo gætilega lýst að lesandinn sér sögusviðið fullkomlega fyrir sér en samt er frásögnin gædd einhverri fullkominni draumkennd — eins og hún sé máluð í vatnslitum. Þemu sem fram koma í draumnum koma aftur upp hér og þar í sögunni og lesandi gæti staðið sig að því að fletta aftur upp á þessum blaðsíðum til að rifja drauminn upp. ... Þessi aðferð Vilborgar hjálpar til við að gera sögusviðið raunverulegt og áþreifanlegt fyrir lesandanum en hún flækir líka tilfinningalíf lesandans, sem stendur sig allt í einu að því að hafa samúð með persónum sem hafa gert ófyrirgefanlega hluti. Hér er ekkert svart og hvítt, allt gráleitt og á reiki eins og nykurinn í draumi Þorgerðar. ... Sagan af Þorgerði Þorsteinsdóttur er krassandi og spennandi. ... Þó er hún á köflum afar átakanleg, einmitt vegna þess að Vilborgu tekst svo vel til að vekja samkennd lesanda með sögupersónum sínum. Bryndís Silja Pálmadóttir / Fréttablaðið í des 2020 Sorgir og særingar formæðranna (ritdómurinn í fullri lengd) Spennandi framvinda ... Þorgerður sjálf er margslungin og raunveruleg persóna sem lesandi finnur til með í sársauka hennar. ... Undir Yggdrasil er kröftug frásögn og alvarleg enda er það ekkert léttmeti þær hremmingar sem sögupersónurnar lenda í. Lesandi verður að vera tilbúinn að lifa sig inn í frásögnina en á sama tíma tilbúinn að takast á við það svartnætti sem mætir sögupersónunum. Eins og áður snuðar Vilborg lesanda heldur ekki um örlitla rómantík þó það sé fremur móðurástin sem er hér fremst í flokki og sýnir hvers mannskepnan er megnug þegar kemur að því að verja eigin afkvæmi. Niðurstaða: Sterk skáldsaga um harm og syndir á árunum eftir landnám. Full af dulúð og göldrum en líka sorg og svartnætti. Soffía Auður Birgisdóttir / TMM 2019 um þríleikinn um Auði djúpúðgu Höfundareinkenni Vilborgar eru sterk og felast ekki hvað síst í því hversu góð tök hún hefur á því að flétta saman grundvallarþræði frásagnar sinnar – svo sem lýsingar á persónum, umhverfi og náttúru – og hversu vandaður og fallegur ritstíll hennar er. Þá eykur það verulega gildi bóka Vilborgar hversu vandað er til forvinnu þeirra, þ.e. heimildavinnu sem felst í margs konar rannsóknum ... Það sem einkennir bækurnar öðru fremur – og markar þeim um leið sérstöðu – er að í þeim ríkir sterkt kvennasjónarmið; það er heimur kvenna sem birtist lesendum þríleiksins ljóslifandi og sá heimur er sjaldnast fyrir ferðarmikill í íslenskum miðaldaritum. ... Mikið er um magnaðar náttúrulýsingar í bókunum þremur þar sem haf, klettar og fuglar eru í aðalhlutverki. Segja má að stíll höfundar rísi einna hæst í myndrænum náttúrulýsingum sem lifna auðveldlega fyrir hugskotssjónum lesenda. ... Enn þurfa íslenskar konur að fást við yfirgengilegt karlasamfélag á ýmsum sviðum. Þannig getur þríleikurinn um Auði átt í merkingarríku samtali við samtímann. Slíkt er reyndar aðall hinna bestu sögulegu skáldsagna. |