Auður
Mjöðurinn svífur fljótt á Auði sem ekki er vön öðru sterkara til drykkjar en öli og hún er rjóð í vöngum, auk þess er orðið vel heitt í dyngjunni því að þær hafa kveikt upp í eldstónni sem annars logar ekki í nema á vetrum, svo að Morag geti farið eldi umhverfis móður og barn og varnað því þannig að álfar komist að þeim. Engin kvennanna amast við aðförunum, ekki einu sinni Vélaug; aldrei er höfð of mikil varúð við haugbúum hvers konar og huldufólkinu sem hér í eyjunum ásælist ekkert meir en ungviðið, sérdeilis mannvænleg sveinbörn, og sjaldan er hættan meiri en einmitt núna þegar nóttin er skemmst á miðju sumri; óhreint á kreiki um allar jarðir fram í dögun. |
![]() Auður, dóttir víkingahöfðingjans Ketils flatnefs, vex up á Suðureyjum, ættstór og skapheit. Allt hennar fólk er heiðið en þegar hún kynnist Gilla munki laðast hún bæði að honum og boðskap hans um Hvítakrist. Fullveðja er Auður gefin Ólafi hvíta, konungi yfir Dyflinni á Írlandi. Samband þeirra er heitt en stormasamt og vináttan við Gilla verður henni að lokum dýrkeypt.
Auður djúpúðga er í hópi þekktustu landnema Íslands. Hér er þroskasaga hennar sögð um leið og dregin er upp mynd af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við Skotland og herjuðu í Vesturhafi, háðu jafnvel blóðuga bardaga innbyrðis. Vilborg Davíðsdóttir er þaulkunnug mannlífi sögutímans og staðháttum á Suðureyjum og Írlandi. Miðaldir eru hennar kjörtími og Auður rís úr djúpi aldanna, sterk og heillandi kona. Hér má heyra umfjöllun um bókina í þættinum Bók vikunnar á Rás 1 haustið 2016 og viðtal við Vilborgu. Auður seldist upp á síðasta ári en endurprentun er nú komin út í kilju og fæst bæði í bókabúðum og í vefverslun Forlagsins. Dómar & umsagnirÁslaug Benediktsdóttir/ Bókmenntir.is Í einu orði sagt þótti mér Auður frábær. Ég las hana hratt því að hún er spennandi og vel skrifuð og naut hverrar mínútu. Mig langar að heyra meira af þessari frægu landnámskonu og vona að Vilborg haldi áfram að segja okkur sögu sterkrar og merkilegrar formóður okkar! Þormóður Dagsson / Morgunblaðið Á bak við skáldsöguna liggur mikil og metnaðarfull sagnfræðivinna sem skilar sér til lesandans í ljóslifandi myndum af menningu og staðháttum Bretlandseyja þessa tíma. ... Sagan er vel uppbyggð, spennandi og fróðleg og heldur kirfilega í lesandann allt til enda. Hrafn Jökulsson / Viðskiptablaðið Vilborg bregður upp skýrri og grípandi mynd af persónum sínum og því lífi sem þær lifðu: Lesandinn finnur lyktina af þeim, heyrir raddir þeirra, sér þær ljóslifandi…Vilborg er í innilegu sambandi við persónur sínar … stíll hennar er kjarnmikill, gjörsneyddur tilgerð sem stundum hendir höfunda á tímaflakki. Skemmtileg og innihaldsrík saga. Heimir Pálsson / Tímarit Máls og menningar Nú kýs Vilborg að söguhetju margfræga konu úr Íslandssögunni og þarf bæði kjark og þekkingu til að endurrita söguna svo sem hún gerir. Kannski má skilja það svo að nú sé komið að kvennasögunni. ... Það er efnileg Laxdæla sem Vilborg Davíðsdóttir hefur byrjað með þessari sögu. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu og sjá hvernig hún byggir upp stórveldi Auðar, sem stofnaði til höfðingjaætta í hverju eyríkinu af öðru. Bryndís Símonardóttir / midjan.is Bókin er afbragðsgóð, eins og við var að búast af Vilborgu. Sögusviðið spennandi og persónurnar lifandi og trúverðugar. Ég hlakka til framhaldsins sem ég hef ástæðu til að ætla að verði enn meira spennandi. Þóra Ingvarsdóttir / ordid.is Það er alltaf ákaflega spennandi að lesa skáldsögu eftir höfund sem er greinilega að skrifa um efni sem hún þekkir mjög vel og hefur sjálf brennandi áhuga á. Auður er slík skáldsaga, eftir hæfileikaríkan höfund sem hefur mikla þekkingu á þeim norrænu heimildum sem hún fléttar skáldsöguna að mestu leyti úr. Sagan sjálf er heillandi. Ingibjörg Rögnvaldsdóttir / bokmenntir.is Þetta er saga sem kveikir áhuga á landnámskonunni Auði, hún er skemmtileg og spennandi og því viljum við fá meira að heyra. Oddný Árnadóttir / eyjan.is Persónusköpun sögunnar er alveg frábær og þar liggur mesti styrkur höfundar. Auður djúpúðga sprettur lifandi fram, sjálfstæð, skapmikil og stolt kona sem lætur sé ekki allt fyrir brjósti brenna. Árni Matthíasson / Morgunblaðið Verður ekki annað sagt en að sú Auður djúpúðga sem birtist í samnefndri bók Vilborgar Davíðsdóttur sé mikið kjarnakvendi. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu. Jenný Anna Baldursdóttir, bókabloggari Bókin Auður, er yndisleg bók eins og reyndar fyrri bækur Vilborgar … þroskasaga Auðar djúpúðgu sem verður í meðförum Vilborgar bæði sterk og heillandi. Jórunn Sigurðardóttir / Seiður og hélog - Rás 1 Auður er svo sannarlega sprellifandi persóna og það eru konurnar í kringum hana líka. Sérstaklega eftirminnileg er systirin Jórunn manvitsbrekka, sem er rammskyggn … Lýsingarnar á trúskiptum ungu konunnar Auðar eru bæði fallegar og afar sannfærandi. Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttablaðið Vel grunduð þroskasaga frá níundu öld, spennandi og forvitnilegum tíma. Gauti Kristmannsson / Víðsjá Verkið er vel undirbúið af Vilborgar hálfu; það er rannsakað og hún hefur góða þekkingu á viðfangsefninu bæði þjóðfræðilega og sögulega… Verkið er vitanlega skáldskapur, en það er greinilegt að Vilborg hefur reynt að nálgast söguheim sinn eins vel og henni er unnt og það eitt gefur sögunni vissan trúverðugleika. Maríanna Clara Lúthersdóttir / Miðjan.is Lýsingar á matarvenjum, vinnu og skemmtan eru lifandi og skemmtilegar en hæst rís sagan í frásögnum af fæðingunum tveimur og brúðkaupi Auðar og Ólafs hvíta. Þar nær Vilborg að gera svo vel það sem hún gerir best – að vekja til lífsins löngu horfna fortíð og lýsa í smáatriðum án þess að lesandinn verði meðvitaður um upplýsingaflæðið því vitund sögunnar hverfur aldrei frá söguhetjunni og tilfinningum hennar. Við stígum með Auði í brúðarlaugina, greiðum hár, kveðum vísur og búum hana undir framtíðina um leið og við skynjum ótta hennar og eftirvæntingu fyrir því sem koma skal. Framtíðin er einmitt óræð í sögulok svo mögulega er von á fleiri bókum um Auði og sjálf er ég spennt að heyra hvernig hin djúpúðga endar á Íslandi. |