Blóðug jörð (2017)
Sífrandi barnsgrátur. |
Árið er 883. Veldi norrænna manna á Bretlandseyjum riðar til falls eftir dauða Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs og Þorsteinn rauður berst við að halda velli á Katanesi þar sem innfæddir gerast æ herskárri. Lífið er hverfult og enginn veit Urðar hug. Á augabragði stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum, ábyrg fyrir lífi ungra sonarbarna. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar þar sem ár og vötn eru sögð iða af fiski, jökulhettur ber við himin og sjálf jörðin spýr eldi.
Á suðurströnd Íslands hafa þrælar gert uppreisn og goldið grimmilega fyrir. Nýja landið er vígt blóði. Einn kemst lífs úr þeim hildarleik: maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs. Vilborg Davíðsdóttir lýkur hér þríleiknum um konuna sem á engan sinn líka í landnámssögu Íslands með sjálfstæðri sögu um siglinguna yfir hafið. Fyrri bækurnar tvær, Auður og Vígroði, hlutu fádæmagóðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda og var sú fyrri tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hér má hlusta á viðtal Margrétar Blöndal við Vilborgu um Auði Ketilsdóttur, í þættinum Stefnumót á Rás 1 18. desember 2017 og sjá hér fyrir neðan viðtal Egils Helgasonar við Vilborgu um Blóðuga jörð í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV. Það er tekið á Krosshólaborg þar sem Landnáma segir að Auður djúpúðga hafi reist krossa, í grennd við býli sitt Hvamm í Dölum. Dómar & umsagnirSoffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur / Tímarit Máls og menningar apr. 2019 Höfundareinkenni Vilborgar eru sterk og felast ekki hvað síst í því hversu góð tök hún hefur á því að flétta saman grundvallarþræði frásagnar sinnar – svo sem lýsingar á persónum, umhverfi og náttúru – og hversu vandaður og fallegur ritstíll hennar er. Þá eykur það verulega gildi bóka Vilborgar hversu vandað er til forvinnu þeirra, þ.e. heimildavinnu sem felst í margs konar rannsóknum ... Það sem einkennir bækurnar öðru fremur – og markar þeim um leið sérstöðu – er að í þeim ríkir sterkt kvennasjónarmið; það er heimur kvenna sem birtist lesendum þríleiksins ljóslifandi og sá heimur er sjaldnast fyrir ferðarmikill í íslenskum miðaldaritum ... Þjóðfræðiþekking Vilborgar kemur bæði fram í lýsingum á ytri gerð samfélagsins sem og hinum innri hugmyndaheimi heiðninnar, þar sem hjátrú og forneskja er ríkjandi. Vandlegar lýsingar eru á húsbúnaði og háttum, sem og ýmsum siðum og athöfnum, svo sem brúðkaupum, blótum og greftrunum. Sérstök áhersla er á viðburði í lífi kvenna, eins og barnsfæðingar og brjóstagjöf. En allar slíkar lýsingar eru vandlega fléttaðar inn í sjálfan söguþráðinn svo upp teiknast breið og trúverðug mynd af heiðnu samfélagi á víkingaöld. Það er einnig augljóst að Vilborg þekkir vel til sögusviðsins hvað landafræði og náttúru snertir. Mikið er um magnaðar náttúrulýsingar í bókunum þremur þar sem haf, klettar og fuglar eru í aðalhlutverki. Segja má að stíll höfundar rísi einna hæst í myndrænum náttúrulýsingum sem lifna auðveldlega fyrir hugskotssjónum lesenda. ... Hitt er víst að enn þurfa íslenskar konur að fást við yfirgengilegt karlasamfélag á ýmsum sviðum. Þannig getur þríleikurinn um Auði átt í merkingarríku samtali við samtímann. Slíkt er reyndar aðall hinna bestu sögulegu skáldsagna og við lesturinn á þessum þremur bókum kom endurtekið upp í hugann hlutskipti almennings, ekki síst kvenna og barna, í stríðshrjáðum löndum í samtíma okkar og flóttamannastraumurinn sem er bein afleiðing stríðsrekstrar. Auður djúpúðga Ketilsdóttir var ef til vill fyrst og fremst stríðsflóttamaður sem tókst að forða sér og sínum og skapa sér líf í nýju landi. Björn Ingólfsson, Grenivík, maí 2018 Sæl Vilborg. Ég hlustaði á fyrirlestur þinn á Húsavík og það hafði þau áhrif að ég náði mér í Auði og byrjaði að lesa. Skemmst er frá að segja að ég hætti ekki fyrr en ég var búinn með allar bækurnar þrjár. Það var gaman. Þetta eru magnaðar bækur. Maður dettur algjörlega inn í þennan heim, sagan heldur manni föstum og það er alltaf spenna. Hvað næst? Lýsingar eru afar trúverðugar, það er engu líkara en höfundurinn hafi verið þarna og tekið þátt í þessu öllu sjálfur. Lýsingin á brúðkaupi Auðar og Ólafs hvíta og öllu tilstandinu í kringum það og í framhaldi af því fæðingu Þorsteins og skilnaði þeirra er magnaður kafli og situr í manni eftir lesturinn. Sama er um útför Þorsteins, skírn Ólafs og söguna af villu Ólafar í Færeyjum sem varð að ástarsögu og endaði með brúðkaupi. Fléttan í sögu Kirínar er snjöll. Það líf sem þarna er lýst hefur maður séð áður í Íslendingasögum en það eru karllægar sögur, konur eru nánast aukaatriði nema þar sem þær verða örlagavaldar í lífi karla. Hér er sagan sögð af sjónarhóli konu og varpar alveg nýju ljósi á líf kvenna á þessum tíma. Þrælar fá líka mál og þátttökurétt sem gerir söguna enn máttugri. Tilfinningar eru afhjúpaðar. Þar er tvennt minnisstæðast. Berserkurinn Bálki Blængsson er algjörlega ómennskur og tilfinningalaus nema þetta augnablik þegar hann hugsar til barnanna sinna. Bardagahetjan Auðgísl játar á sig hræðslu. Þú hefur búið til ótrúlega sannfærandi sögu úr þessu pjötlum sem þú hefur tínt upp hér og þar. Kemur ekki á óvart að farið sé að undirbúa kvikmynd. Þessi saga býður upp á það. Gangi þér vel með næstu Íslendingasögu. Ég hlakka til að lesa. Ragnheiður Erla Bjarnadóttir / Lifðu núna, jan 2018 Með þessari bók lýkur Vilborg þríleiknum um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, eina mestu landnámskonu Íslands, sem bæði er getið um í Landnámu og Laxdælu enda með miklum ólíkindum hvernig henni tókst að flýja með fullar hendur fjár á öðrum eins óeirðartímum og voru við lýði. Persónulýsingarnar eru sterkar og grípandi og gefa áhugaverða innsýn inn í líf einstaklinganna sem eru á ólíku æviskeiði. Gaman er að fylgjast með tvíburunum Ólöfu og Gróu Þorsteinsdætrum enda eru þær sterkir karakterar þrátt fyrir ungan aldur og láta ekki aðra vaða yfir sig. Þetta er einstaklega áhugaverð bók eins og hinar tvær og nú er komið að því að lesa Laxdælu að nýju. Kolbrún Bergþórsdóttir og Sigurður Valgeirsson / Kiljan, RÚV, 20. des 2017 „Ég hef ekkert nema gott um þessa bók að segja,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntagagnrýnandi, um þriðju bók Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu sem heitir Blóðug jörð ... „Hún byrjar þessa bók með glæsibrag, með orrustulýsingu, kafli sem virkilega hreyfir við manni og er sterkasti kafli bókarinnar,“ segir Kolbrún og Sigurður Valgeirsson tekur undir það. „Ég er sammála, þessi orrustukafli í byrjun, hann eiginlega stendur upp úr vegna þess að hann er alveg stórglæsilegur.“ Kolbrún segir að margt í bókinni sé sérstaklega vel gert, til að mynda sé vel haldið utan um allar persónur og ljóst að Vilborg hefur kynnt sér þennan tíma vel. „Hættan er sú að þegar höfundur hefur unnið mikla heimildavinnu að textinn verði stirður fyrir vikið … en hún heldur flæðinu alveg.“ Vilborg á sér marga aðdáendur sem fylgt hafa Auði í gegnum þessar bækur en þurfa nú að kveðja hana. Sigurður og Kolbrún eru þó alls ekki viss um að þetta verði síðasta bókin ... „Það er eiginlega ekkert því til fyrirstöðu að hún bæti bara við fleiri bókum um Auði,“ bætir Sigurður við. „Hún þarf ekki að stoppa þarna, hún getur alveg haldið áfram og ég held að aðdáendur bókanna muni bara kalla eftir því,“ segir Kolbrún. „Við hvetjum hana til þess,“ segir Sigurður að lokum. Kiljan okt / des 2017 Hér má sjá brot úr viðtali Egils Helgasonar í Kiljunni í okt. 2017 við Vilborgu um Auði djúðúðgu og glimrandi dóma gagnrýnenda þáttarins, Kolbrúnar Bergþórsdóttur og Sigurðar Valgeirssonar um Blóðuga jörð 20. des. sl. Maríanna Clara Lúthersdóttir / Morgunblaðið, des 2017 Magnaður hafsjór fortíðar - fjórar stjörnur Með Blóðugri jörð lýkur Vilborg Davíðsdóttir mögnuðum þríleik sínum um landnámskonuna Auði djúpúðgu ... Nýr heimur lýkst upp fyrir lesandanum ... Engum sem svo mikið sem blaðar í sögu Auðar getur dulist hversu gríðarleg rannsóknarvinna liggur á bak við verkin en aldrei fellur höfundurinn í þá gryfju að láta heimildirnar taka yfir skáldsöguna. Hún beitir ýmsum stílbrögðum til að fella upplýsingarnar inn í textann, svo sem að færa sjónarhornið til gesta eða barns sem horfir á veröldina forvitnum, saklausum augum. Lesandinn öðlast mikla innsýn í ókunnan heim; matur, fatnaður, húsbúnaður, trúarbrögð, galdrar, leikir (fuglafit var til – sem og boltaleikir) fæðingar, brúðkaup, jarðarfarir – saman byggja skáldskapurinn og óþrjótandi fróðleikur Vilborgar um tímabilið heillandi heim sem erfitt er að kveðja. Umfram allt eru það þó persónurnar, Auður og samferðafólk hennar, sem rísa upp úr þessum magnaða hafsjó fortíðar og lifa lengi með lesandanum. Arnþór Helgason / Facebook, des 2017 Komdu sæl, Vilborg. Ég hef lesið flestar bækur þínar af mikilli athygli og nú síðast bækurnar um Auði. Það er hreint dásamlegt hvernig þú vefur órofaheild úr þráðum þeim sem þú spinnur. Blóðug jörð er hreint listaverk þar sem allt gengur upp. Ég óska þér hjartanlega til hamingju með stórvirki þetta. Fáir hafa ofið slíkt dýrmæti úr íslenskum þjóðararfi. Gangi þér allt að óskum. Kristín Gísladóttir / Facebook, des 2017 Hef lifað og hrærst með Auði undanfarnar vikur! Las Blóðug jörð og tók svo fram fyrri bækurnar og las aftur og líka langt komin aftur með þá síðustu og bestu. Hvílík lestrarnautn! Sagan, Auður, lýsingarnar á landslagi, veðri, fuglalífi, hafinu... þú ert með á staðnum. Kristnin, heiðnin, athafnir, handbragð, ást, hatur... Hvílík snilld. Takk Vilborg! Andri Kristjánsson / Víðsjá, Rás 1, 23. nóv 2017 Blóðug jörð er spennandi bók, sem er vel af sér vikið því lesandinn veit hvernig sagan endar. Flestir vita jú að Auður djúpúðga nam land í Hvammsfirði. Spennan í bókinni tengist því ekki hvort að persónurnar ná markmiði sínu heldur hvernig þær ná því. Persónusköpunin er því einn helsti styrkur bókarinnar. Persónur eru vel gerðar og það er ekki síst tilfinningaleg dýpt þeirra sem vekur áhuga lesandans og heldur honum föstum við lestur bókarinnar. Ferðalagið sjálft vekur upp forvitnilega upplifun hjá lesandanum sem vert er að nefna. Þegar Auður og hennar fólk kemur loksins til Íslands upplifir lesandinn að hann sé kominn á kunnuglegar slóðir, örnefnin, landslagið og landnámsfólkið, allt þetta hringir kunnuglegum bjöllum í huga lesandans. Frásagnir af landnámi Ingólfs Arnarsonar og Hjörleifs fóstbróður hans fléttast saman við frásögnina í Blóðugri jörð og veita lesandanum þá tilfinningu að hann sé loksins kominn heim eftir langa dvöl erlendis. Þetta er áhugaverð upplifun vegna þess að hún er í algjörri mótsögn við upplifun persóna bókarinnar sem koma að ströndum framandi lands sem er óralangt í burtu frá heimkynnum þeirra. Þessar andstæður í upplifun lesandans og upplifun persóna undirstrikar þá staðreynd að Auður djúpúðga Ketilsdóttir er útlendingur á Íslandi líkt og allir landnámsmenn sem settust hér að. Það sem meira er, Auður er í raun og veru flóttamaður sem flúði heimalandið vegna stríðsátaka, flúði til Íslands í leit að betra lífi fyrir sig og fjölskyldu sína. Helgi Magnús Gunnarsson / Facebook, nóv 2017 Þá hef ég lokið við að lesa síðustu bókina af þremur um Auði djúpúðgu. Frábær bók eins og hinar tvær. Ég mæli með að þið kaupið þessar bækur og lesið ef þið hafið einhvern áhuga á að bregða ykkur í tímavél og skoða vel ígrundaða og útpælda mynd af forfeðrum okkar og uppruna og sögu kvenhetjunnar Auðar sem er víst langalangamma x31 okkar allra. Halla Signý Kristjánsdóttir / Facebook, nóv. 2017 Á degi íslenskrar tungu er ég að klára þessa bók. Góður lestur og krefjandi texti með mörgum gömlum íslenskum orðum sem gott er að rifja upp. Barátta Auðar djúpúðgu fyrir sjálfstæði frá karlaveldi og stríðsátökum er gömul og ný saga kvenna í heiminum. Takk fyrir mig, Vilborg Davíðsdóttir. Sigurður Jónsson / Facebook, nóv. 2017 Vilborg nær að skapa þarna sterka mynd af mikilli konu sem stendur styrkum fótum bæði í heimi norrænna hefða, gelískra og kristinna. Konu sem berst fyrir að vera hún sjálf í heimi þar sem konur voru í besta falli góð milligjöf þegar kallarnir sömdu sín á milli um völd og fé. Fengu kannski að ráða á sínu heimili ef eiginmanninum þóknaðist svo. Konu sem berst fyrir sannfæringu sinni og sjálfstæði og reynir að standa keik þrátt fyrir að umhverfið og örlaganornirnar spinni henni vef sem hefði bugað flesta. Vilborgu tekst að flétta þetta inn í svo spennandi og skemmtilega frásögn að hún heldur athyglinni frá fyrstu blaðsíðunni í fyrstu bókinni til síðustu blaðsíðu í þeirri síðustu. ... Mér finnst svo heillandi að lesa bók eftir konu ritaða um konu sem báðar eru heillandi kvenskörungar. Ég sem er alinn upp af sterkum konum og umvafinn í mínu lífi af sterkum konum, eiginkonu og þrem dætrum og verð svo glaður fyrir okkar allra hönd að fá að lesa svona sögu og hvet alla vini og alla aðra að kynna sér þennan þríleik. Hann er hverrar mínútu virði sem notaður er að kynna sér hann. Takk, Vilborg Davíðsdóttir, fyrir yndisstundirnar við Kindilinn. Bjarni Jónsson / Facebook, nóv. 2017 Sagan er margbrotin, flókin og, eins og nafnið gefur til kynna, blóði drifin, saga af stórkostlegri konu. Náttúrulýsingar, sjávarhættir og allt sem viðkemur lýsingum af fólki, landslagi, vindáttum og siglingum ótrúlega vel útfært. Vilborg er að sama skapi snilldarrithöfundur. Abelína Hulda Harðardóttir / Facebook nóv. 2017 Bækurnar þrjár um Auði hafa svo sannarlega veitt mér ánægju, svo mikla að ég ætla við fyrsta tækifæri að lesa þær allar þrjár aftur. Reyndar er ég svo hrifin af Vilborgu sem rithöfundi að ég hef lesið allar bækurnar sem hún hefur gefið út. Svo skemmtilegar með sagnfræðilegu ívafi sem gerir þær enn skemmtilegri. Vilborg Davíðsdóttir, takk fyrir alla ánægjuna og fróðleikinn. Hrafnhildur Konráðsdóttir / Bókagull-hópurinn, Facebook okt. 2017 Í gærkvöldi lauk ég við að lesa BLÓÐUG JÖRÐ eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Vá, hvað þessar þrjár bækur um Auði djúpúðgu eru mikil listaverk. Ég á eftir að lesa þær allar þrjár aftur, bara ekki alveg strax. Ef allir rithöfundar vönduðu svona vel til verka sinna, þá væri bókaheimurinn eins og hreinasta paradís. Er að hugsa um að kíkja aðeins í Laxdælu á eftir. Þúsund þakkir, Vilborg Davíðsdóttir. |