Eldfórnin
Jórunn svaraði henni og talaði hægum rómi, eintóna einsog hún hefði æft þessa orðræðu með sjálfri sér: ,,Ég hirti ekki um það þótt hann færi upp undir vinnukonupilsin, þau voru svo mörg. Við slíku má búast í hjónabandi og konan verður að líta undan," sagði hún. ,,En svo var það Guðrún ein og engin önnur og þá gegndi öðru máli. Hann baðaði sig ætíð áður en hann fór upp í Dal. Þvoði sér og skrúbbaði þar til hann var blóðrisa. Hann var að þvo af sér lyktina af mér, skilurðu? Þvo mig af sér. Þess á milli kom hann ekki í baðstofuna, þreif sig ekki dögum saman eftir að hann kom frá henni. Ég fann af honum lyktina hennar, líka lyngilmi." |
Þegar Katrín Pálsdóttir steig inn fyrir veggi klaustursins í Kirkjubæ, átján vetra og ein á báti, vissi hún ekki hvað beið hennar. Myndi hinni forsmáðu systur Jórunni takast að flæma hana á vergang? Og presturinn ungi sem horfði svo einkennilega á hana – hvaða hlutverki átti hann eftir að gegna í lífi hennar?
Árið 1343 var nunna úr Kirkjubæjarklaustri brennd á báli og ber annálum ekki saman um sakirnar sem bornar voru á hana af Jóni Sigurðarssyni, biskupi í Skálholti. Var systir Katrín fjölkunnug og í þingum við sjálfan djöfulinn? Eða lá eitthvað annað að baki því sem gerðist í Kirkjubæjarklaustri? Eldfórnin er byggð á sannsögulegum atburðum og veitir magnaða innsýn í klausturlíf og kaþólskan tíma á Íslandi um leið og hún vekur upp spurningar um hversu langt er hægt að ganga í nafni fórnfýsi og ástar. Bókin er ófáanleg hjá útgefanda. Dómar & umfjöllunBjörk Vilhelmsdóttir / Facebook nóv. 2017 Eldfórnin eftir Vilborgu Davíðsdóttur er magnað sögulegt skáldverk. Sögusviðið klaustrið að Kirkjubæ á 14. öld og segir frá því hvernig farið var með konur og þurfafólk á þeim tíma. Áhugaverð lesning eftir að hafa horft á og lesið um siðbótina fyrir réttum 500 árum. Er enn sannfærðari en áður um mikilvægi siðbótarinnar, kvenréttinda og jöfnuðar. Ragnheiður Pála Ófeigsdóttir / Tímarit kaþólska safnaðarins 1998 Sagan er skrifuð á mjög fallegu máli sem endurskapar tilfinninguna fyrir þeim tíma sem sagan á að gerast á. Fötum og híbýlum og daglegu lífi er lýst mjög nákvæmlega svo að andrúmsloft og umhverfi verður mjög lifandi. Vilborg lýsir klaustrinu og lífinu innan veggja þess á mjög myndrænan hátt, m.a. því hlutverki nunnuklaustra að vera eins konar skjól fyrir konur ... Eldfórnin er mjög frumleg, áhrifamikil og á margan hátt djörf söguleg skáldsaga sem gæðir miðaldirnar lífi og gerir hugmyndir og lífsviðhorf miðaldamanna skiljanleg og áþreifanleg fyrir nútímamenn. Kjarninn í mannlífinu er alltaf sá sami. Lífið er barátta á milli góðs og ills í ýmsum myndum. Ragna Garðarsdóttir / Tímarit Máls og menningar 1998 Eldfórnin er skýrlega framsett verk, en einkar margslungið. Lesandinn fyllist ekki ósvipaðri tilfinningu og aðalpersónan, Katrín, gerir. Þrátt fyrir nákvæmni og skýrleika hékk ég yfirleitt í lausu lofti með bæði persónurnar og söguþráðinn, það var líkast því sem hlutirnir væru ekki eins og þeir sýndust. Það ferli sem Katrín gengur í gegnum kallast þannig ekki einasta á við uppbyggingu sögunnar allrar, heldur lestrarreynslu mína einnig. Allir þessi niðurnjörfuðu merkingarstaðir í verkinu leysast smám saman upp fyrir lesanda og er aldrei að vita hver útkoman verður. Hver og einn kemst líklega að eigin niðurstöðu og verður lesturinn sérlega spennandi fyrir vikið. |