Land næturinnar (2023)
Vilborg er ekki aðeins bráðflinkur fléttusmiður í skáldsögu heldur óvenjulega skarpeygur fræðimaður og ég veit fá eða engin skáld sem mér þykir hagari í að giska á hverju heimildir þegja yfir. ... Fyrir þann sem varið hefur tugum ára til að reyna að skilja hulda dóma miðaldafræðanna er ómetanlegt að fá í hendur verk sem ekki er aðeins spennandi, hrikalegt og gagnrýnið heldur einnig fullt af mannelsku, jafnvel þegar lýst er inn í myrkurhella sögunnar. |
Þorgerður Þorsteinsdóttir hefur lifað mikinn harm heima á Íslandi og heldur til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar. Saman halda þau til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja. Land næturinnar er áhrifamikil og spennandi skáldsaga sem hefst þar sem þræðinum sleppti í fyrri bókinni um Þorgerði, Undir Yggdrasil, en fyrir hana var Vilborg Davíðsdóttir tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021. Hér leiðir hún lesendur enn í ævintýraför og opnar nýja sýn á slóðir víkinga í Austur-Evrópu. Sögusvið Lands næturinnar er Austurvegurinn, verslunarleið norrænna manna á víkingaöld eftir fljótum og vötnum Austur-Evrópu suður til borgarinnar Konstantinópel sem þeir nefndu Miklagarð.
Dómar
|