Vígroði
,,Hann á von á þér.“ Bárður drepur hraustlega á dyrnar, opnar þær síðan án þess að bíða svars og vísar henni inn fyrir, gengur sjálfur burt hröðum skrefum. |
Auður djúpúðga elur upp son sinn á eigin jörð á Katanesi. Hún hefur haldið sig fjarri Suðureyjum frá því að leiðir hennar og Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs skildu af ótta við að Ketill flatnefur, faðir hennar, gefi hana manni á ný.
Að veturnóttum 865 kemur hún þó í föðurhús, til brúðkaups bróður síns og dóttur Ingólfs Arnarsonar. Þar spá dísirnar því að vígroða muni brátt slá á víkinga í Vesturhafi. Og víst horfir ófriðvænlega á norðanverðum Bretlandseyjum þar sem innfæddir veita norrænum mönnum æ meiri mótspyrnu og Orkneyjajarl ásælist aukin völd. Þá ræðst Dyflinnarkonungur inn í Péttland, öllum að óvörum, og leiðir þeirra Auðar liggja saman að nýju … Vígroði er framhald af skáldsögunni Auður sem kom út 2009, naut geysilegra vinsælda og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Vilborgu í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV um bókina. Dómar & umsagnir
Eyja M. Brynjarsdóttir / Druslubækur og doðrantar, bokvit.blogspot.com Bókin er feiknavel skrifuð, söguþráðurinn áhugaverður og lýsingar allar þannig að maður sér persónur og atburði ljóslifandi fyrir sér. Ef eitthvað er fannst mér hún sterkari og áhugaverðari en Auður, kannski af því að persónan Auður er nú orðin eldri, reyndari og þroskaðri en stúlkan í fyrri bókinni. Egill Helgason / Kiljan Breið og mikil saga … mjög stórt sögusvið og stór saga. Friðrika Benónýsdóttir / Fréttablaðið Bókin er afskaplega vel unnin og liggja augljóslega miklar rannsóknir og mikil vinna að baki. … Vandlega unnin og vel skrifuð saga um aðdraganda þess að Auður djúpúðga nam land á Íslandi. Skafti Þ. Halldórsson / Morgunblaðið Segja má að Vilborg skrifi fornsögur með kvenlegu sjónarhorni. Þetta er átakasaga enda túlkar hún sögulega atburði þar sem tekist er á … Styrkur sögunnar er hin breiða samfélagslýsing og ljóst er sem fyrr að Vilborg hefur unnið heimildavinnuna vel. … Hún byggir á upprunasögu okkar því að flestir eru Íslendingar komnir af þeim persónum sem þarna er fjallað um ef eitthvað er að marka íslensku fornritin. Kolfinna Jónatansdóttir / Spássían Grípandi og spennandi. |